Tuesday, September 2, 2014

Sparnaðarráð

Ekki nóg með að við hér á heimilinu séum lítil krúttleg fjölskylda, heldur erum við samansett af foreldrum sem eru báðir í námi auk þess að eiga skottu í grunnskóla og kött með ofnæmi ;)
Við hjúin erum á námslánum og sér bankinn um að skammta okkur vissar upphæðir í hverjum mánuði í formi yfirdrátts, þegar LÍN borgar okkur svo lánin lætur bankinn yfirdrættina falla niður og notar peninginn til að borga það að sjálfsögðu, auk þess að taka sér lágmarksgjald fyrir yfirdráttarþjónustuna... þetta fyrirkomulag kom sér vel í fyrra og í ár verður engin breyting á. Reyndar er maðurinn minn að vinna í verslun aðra hverja helgi (og meira í fríum og slíku þegar hann getur) svo hingað til hafa námslánin hans verið lægri en mín.
Hver er tilgangurinn með þessari orðræðu? Jú, þegar staðan er svona lærir kona að spara og reynir sitt besta til að spara bæði tíma og peninga svo hægt sé að lifa og njóta ;)

Ég er sífellt að reyna að finna leiðir til að spara og að þessu sinni læt ég nokkrar sparnaðarleiðir flakka sem henta okkur vel, að sjálfsögðu getur ekki allt hentað öllum ;)


  • Ég er kaffisvelgur, sérstaklega á prófatíma! Af þeim sökum kaupi ég G-mjólk til að nota í kaffið, hún bæði endist mun lengur en venjuleg mjólk auk þess sem það er hægt að setja smá skvettu í litla krukku, hrista í smástund og setja í örbylgjuna í ca 30 sek og þá ertu kominn með dýrindis froðu í kaffið! ;) Ef ég kaupi bara venjulega mjólk klárast hún mjög fljótt, sem er ekki alveg að gera sig með tilliti til þess hvað líterinn er orðinn dýr í dag.
  • Og talandi um verðið á mjólkurlíternum! Ég mæli með að ef þið eigið leið í Kost á þriðjudögum að kaupa mjólk fyrir alla vikuna! Þeir eru með þriðjudagstilboð á mjólkinni og kostar hún þá einungis 80 krónur líterinn, ég er einmitt búin að plana ferð þangað á eftir enda er heimilið orðið mjólkurlaust. Þetta hentar sérstaklega vel ef Kostur er ekki langt frá heimilinu eða er í leiðinni sem þú ert að fara, t.d. er Bónus staðsett í Smáratorgi og Krónan er í Lindunum sem er ekki svo langt frá Kosti ;)
    • Þeir eru reyndar með allskonar tilboð alla virka daga en mjólkurtilboðið er það sem ég notfæri mér helst, svo hef ég reyndar líka keypt hakk hjá þeim á svona dagstilboði ;)
  • Tímasparnaður: Ertu að gera lasagna? Gerðu tvö eða jafnvel þrjú og settu aukalasagnað í frystinn til að eiga síðar. Ég gerði einmitt tvö núna um daginn, hafði annað þeirra í kvöldmatinn en setti hitt í álpappírsílát með loki, merkti það og skellti í frystinn. Kemur sér vel þegar það er mikið að gera í skólanum og maður má ekki vera að því að undirbúa kvöldmatinn, þarf bara að passa að skella þessu í ofninn ca tveimur tímum fyrir kvöldmat og þá er komin þessi fína heimalagaða máltíð án nokkurrar fyrirhafnar! Þetta er reyndar bæði tímasparnaður og peningasparnaður því þegar maður er í þessum aðstæðum (allt brjálað að gera) þá er alltof auðvelt að detta í þann pakka að fara og kaupa skyndibita sem kostar allt of mikinn pening auk þess að vera óhollt! ;)
    • Ég var svo að gera Ritzkex-bollur um helgina, gerði tvöfalda uppskrift. Ég eldaði þær allar en var einungis með helminginn í mat um kvöldið og rest setti ég í frysti til að eiga síðar þegar mikið er að gera ;) Ég er með þetta ofarlega í huga þessa dagana (elda meira en vanalega til að setja rest í frysti) því ég sé fram á ansi lítinn frítíma næstu mánuðina ;)
  • Nesti, nesti, nesti! Þá daga sem maður er lengi í skólanum (já eða bara á venjulegum vinnudegi) er möst að hafa með sér nesti, það sparar manni ótrúlega mikinn pening! Maður sleppur líka við að standa fyrir framan kæli með fáránlega miklu úrvali af mat og eiga erfitt með að ákveða sig, standa svo í biðröð til að geta borgað fyrir matinn og hafa svo fyrir því að finna sér stað til að borða á. Með nesti í för þarftu bara að finna þér stað til að borða á, njóta matarins og tímann sem þú sparar þér ;)
  • Bókasafn! Ég er að læra almennilega núna hversu auðvelt líf það er að eiga bókasafnskort. Ég les nú ekki mikið, aðallega námsbækur, en ef mig langar að lesa einhverja bók þá þarf ég ekki að kaupa hana heldur fæ ég hana lánaða endurgjaldslaust! (Á meðan ég er í HÍ þarf ég ekki að borga fyrir bókasafnskortið mitt, vúhúúú!) Passaðu bara að skila á réttum tíma svo þú fáir ekki sekt, einnig er hægt að framlengja tímann á bókinni ef þú kemst ekki til að skila henni á réttum tíma ;)
  • Ebay, ebay, ebay og ebay! Þið hafið séð færslurnar mínar er það ekki? I rest my case!
  • Áttu Senseo-kaffivél? Notaðu coffee-duck! Getur keypt þér hvaða kaffi sem er fyrir mun minni pening heldur en einn kaffipúðapoki kostar. Að vísu er líka hægt að kaupa poka með "no name" kaffipúðum sem passa í Senseo vélarnar en þær týpur sem ég hef prófað hafa ekki farið voða vel í mig, ég ætla ekki að fara neitt nánar í það!
  • Hættu að nota gluggasprey! Venjuleg tuska og örtrefjatuska leysa málið! Þú bleytir venjulegu tuskuna (ekki rennbleyta samt, hafðu hana vel raka) og ferð yfir gluggann/spegilinn með henni og þurrkar svo bleytuna af með örtrefjatuskunni (hefur hana semsagt þurra!) Stundum kemur kusk/ryk eftir örtrefjatuskuna en það gæti stafað af því að þegar hún hefur verið þvegin í þvottavélinni hafi jafnvel verið notað mýkingarefni (það er nono fyrir örtrefjatuskur!) eða þá hreinlega að gæðin í tuskunni eru léleg. Það eru mörg ár síðan ég hætti að kaupa gluggasprey, notast alltaf við þessa aðferð með góðum árangri :)
  • Hefurðu ekki efni á/tímirðu ekki að kaupa nýjar tuskur? Áttu gömul handklæði sem eru hætt í notkun? Ekki henda þeim, klipptu þau niður og notaðu sem tuskur. Þú getur skellt þeim í saumavélina og lagað til kantana sem þú klipptir ef þú vilt en það er ekki nauðsyn :)
    • Þú getur líka heklað/prjónað þér tuskur en þá er best að nota bómullargarn í verkið ;)
  • Langar ykkur að breyta til og fara út að borða en lítill peningur til? Þá er kjörið að kíkja í Ikea! Krakkarnir geta jafnvel fengið að hoppa og skoppa aðeins í Småland á meðan foreldrarnir skoða í búðinni (þið vitið, það kostar ekkert að skoða og láta sig dreyma!) og svo er endað á því að smala fjölskyldunni saman á veitingastaðnum og borða :) Þar er einnig komin ísvél í sjálfsafgreiðslu, manninum mínum þótti það ekki leiðinlegt þegar við fórum þangað um daginn ;)
Ókei, þetta eru kannski aðeins meira en "nokkur" atriði ;) Ég held ég hafi virkilega ekki gert mér grein fyrir hvað ég er búin að tileinka mér mörg sparnaðarráð án þess að átta mig á því, en það er aldrei að vita nema ég lumi á nokkrum í viðbót í pokahorninu ;)

Heyrumst næst!

3 comments:

  1. Dugleg! Líst vel á þetta hjá þér! ;)

    ReplyDelete
  2. flott ráð.
    En hvað er coffee duck?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Þetta lítur svona út: http://www.coffeeduck.com/images/image_cd_2.jpg
      Maður setur kaffiduftið í þetta og lokið yfir, í senseo vélina og hellir uppá dýrindis kaffi -algjör snilld! ;)

      Delete